145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:33]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Auðvitað er langmikilvægast að ljúka ekki þingstörfum án þess að bæta kjör aldraðra og öryrkja og koma til móts við fjölda sjúklinga á Landspítalanum svo ekki þurfi að skera þar niður. Það vill svo til að nánast er um sama hópinn að ræða vegna þess að fjölgunin á Landspítalanum stafar af því að þjóðin er að eldast og stærsti hópurinn í fjölguninni á Landspítalanum er aldraðir. Samkvæmt þessu vill stjórnarmeirihlutinn sjá til þess að þessi hópur, aldraðir sem skilað hafa sínu hlutverki og öryrkjar sem geta ekki unnið fyrir sér, verði fátækasti hópurinn í samfélaginu. Það á líka að skera við þá þjónustu á þjóðarsjúkrahúsinu.

Þetta er skandall sem alls ekki er hægt að líða. Enginn þingmaður getur labbað út með reisn eftir að hafa afgreitt fjárlög með slíkum hætti. Þetta varðar líf og limi fólks en auðvitað er líka mjög mikilvægt að Ríkisútvarpinu sé gert kleift að sinna sínu mikilvæga hlutverki. Það skiptir máli fyrir samfélagið að við búum svo um hnútana að það geti gert það. Eins og rekstrarumhverfið er sem boðið er upp á samkvæmt fjárlögunum mun það ekki ganga.