145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:37]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef eins og hv. þingmaður áhyggjur af heilsugæslunni í landinu. Þar er verið að setja inn nokkra fjármuni, 500 milljónir minnir mig, til að koma til móts við heimahjúkrun, sálfræðiþjónustu og eitthvað fleira. Það er talað sérstaklega um að það eigi að fjölga heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu um þrjár og í breytingartillögunum er gert ráð fyrir 70 milljónum til að greiða húsaleigu í átta mánuði. Í plönum ráðuneytisins er gert ráð fyrir að þessar nýju heilsugæslustöðvar muni starfa í átta mánuði. Það er ekki gert ráð fyrir neinum sérstökum fjármunum til að reka þær, heldur er verið að búa til eitthvert nýtt kerfi sem á að ganga út á að fjármunir fylgi sjúklingum. Síðan er hugmynd sem mér finnst líka svolítið sérstök og mig langar að draga fram hér, að þegar fjárlaganefnd fær tillögurnar um húsaleigupeningana, 70 millj. kr., 23. nóvember fylgir með í textanum, með leyfi forseta:

„Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að bjóða út rekstur þriggja nýrra heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu til að auka aðgengi íbúanna að þjónustunni.“

Þegar breytingartillögurnar eru síðan birtar í skjali í þinginu er búið að taka þetta út (ÖJ: Þolir ekki dagsljósið.)en í viðtali við hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra í þættinum Sprengisandi á sunnudagsmorguninn sagði hann mjög skýrt að til stæði að bjóða út heilsugæslustöðvarnar þrjár og að hann styddi hæstv. heilbrigðisráðherra í því öllu saman. Það er samt eins og menn þori ekki að taka umræðuna. Við höfum kallað eftir því, m.a. í nefndaráliti 1. minni hluta, að þessi umræða verði gagnsæ og uppi á borðum. Það að ætla að bjarga heilsugæslunni með einkarekstri en ekki með peningum þegar hún er fjársvelt er dæmi sem gengur ekki upp.