145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:42]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki alltaf málflutning stjórnarliða þegar kemur að almannatryggingum og kjörum aldraðra og öryrkja. Menn eru að tala um að sumir hafi tekjur annars staðar og sumir séu ágætlega stæðir. Það er allt saman satt og rétt en við erum ekki að tala um þann hóp. Hér er verið að tala um hópinn sem hefur bara strípaðan lífeyri, það er nákvæmlega sá hópur sem er verið að tala um. Það er sá hópur sem verður samkvæmt upplýsingum frá velferðarráðuneytinu með 247 þús. kr. mánaðarlaun á árinu 2016 eftir allar hækkanirnar sem menn leggja nú saman út og suður. Lægstu laun verða á sama tíma 270 þús. kr. Eru þetta jafn góð kjör? Eru kjörin betri en lægstu laun? Ég trúi því ekki að hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans láti plata sig með svona reikningsdæmi og svona kúnstum. Þeir hljóta að rifja upp stærðfræðina sína úr 12 ára bekk og sjá að þetta gengur ekki upp. Að halda því fram að það að hækka lífeyri um 9,7% frá 1. janúar sé það sama og að hækka lægstu laun um 10,9% frá 1. maí 2015 og aftur um 5,9% 1. maí 2016 er bara grín. Það er verið að rugla fólk í ríminu. Það getur vel verið að fólk sé vel meinandi en við erum ekki að tala um hópinn sem er best settur, við erum að tala um þá sem eru með algjörlega strípaðan lífeyri. Annað er ekki undir í þessari umræðu og ekki heldur í fjárlagafrumvarpinu.