145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:44]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Þetta er kjarni málsins.

Mig langar aðeins að koma inn á málefni RÚV og þær áhyggjur sem ég deili með hv. þingmanni um hver staða RÚV verður ef útvarpsgjaldið heldur áfram að vera 16.400 kr. á næsta ári og hækkar ekki upp í 17.800 eins og tillaga hæstv. menntamálaráðherra gengur út á. Ríkisútvarpið hefur verið mikil kjölfesta í fjölmiðlaflórunni hjá okkur og mikill menningarmiðill sem hefur fylgt okkur frá 1930, í 85 ár. Maður sér einhvern veginn fyrir sér að það sé verið að brjóta þessa stofnun niður hægt og bítandi. Ríkisútvarpið hefur verið með mjög metnaðarfulla framtíðarsýn og undanfarin missiri komið til móts við landsmenn með ýmsum hætti, bæði með öflugri barnadagskrá og þáttagerð sem snýr að landsbyggðinni. Í öllu þessu hefur verið uppgangur sem er til sóma fyrir þennan fjölmiðil sem aðrir fjölmiðlar hafa ekki fetað í fótsporin á. Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að framtíð RÚV verði? Núna er verið að skera niður um 500 milljónir með því að hækka ekki útvarpsgjaldið og 100 þeirra fara í kjarabætur. Er verið að brjóta útvarpið niður hægt og bítandi fyrir framan augun á þjóðinni og ætlar enginn að lyfta litla fingri? Ætla þeir innan stjórnarflokkanna sem tala fyrir því að hafa RÚV áfram að horfa upp á þetta (Forseti hringir.) aðgerðalausir?