145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:55]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Þarf ekki að kalla út leitarsveit til að reyna að hafa uppi á hæstv. heilbrigðisráðherra? Hæstv. forseti upplýsti hér að boðum hefði verið komið til hans um að nærveru hans væri óskað á hinu háa Alþingi. En var það ekki einmitt þessi sami hæstv. forseti og nú situr á stóli sínum fyrir aftan mig sem gaf nákvæmlega þessar sömu upplýsingar um miðja síðustu nótt? Þá var líka verið að koma boðum til hæstv. heilbrigðisráðherra um að nærveru hans væri krafist.

Er þá hæstv. heilbrigðisráðherra týndur? Hefur ekkert til hans spurst síðan í nótt? Á virkilega að bjóða hv. þm. Ögmundi Jónassyni upp á að koma hingað dag eftir dag og óska eftir því að hann fái notið síns lýðræðislega réttar til að ræða við hæstv. heilbrigðisráðherra og það er stöðugt af hálfu þingsins verið að koma boðum til hæstv. ráðherra? Er ekki komið að því að hæstv. forseti stöðvi þennan fund og láti nótt sem nemur þangað til hæstv. heilbrigðisráðherra þorir að koma til umræðu um heilbrigðismálin í tengslum við fjárlagafrumvarpið?