145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:01]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég skal virða þetta samkomulag sem ég var reyndar að heyra fyrst um nú en finnst ekki óeðlilegt. Ég þakka líka hæstv. forseta fyrir að lýsa því yfir að boðum hafi verið komið til hlutaðeigandi aðila um að koma til fundarins en ég verð að segja fyrir mitt leyti að mér finnst harla undarlegt að hvorki formaður né varaformaður fjárlaganefndar skuli vera í Alþingishúsinu meðan umræða um fjárlög stendur.

Síðan vil ég segja hitt að ef einhver heldur að þetta sé einhver leikaraskapur af okkar hálfu, ef einhver skyldi halda að ég sé að leika mér þegar einkavæðing heilbrigðisþjónustunnar er annars vegar og ég er að krefjast svara þannig að ég viti um hvað við erum að fjalla, um hvað við erum að deila, er það mikill misskilningur. Mér finnst þetta grafalvarlegt mál. Nú höfum við verið upplýst um það á þingi að vinnugögnunum sem upphaflega (Forseti hringir.) voru sett fyrir fjárlaganefnd þar sem kveðið var á um útboð og einkavæðingu hefur verið breytt. Hæstv. fjármálaráðherra hefur hins vegar tekið undir þessi sjónarmið — ég var búinn að gleyma því að ég ætlaði að virða samkomulag um tíma og stíg umsvifalaust úr pontu.