145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:26]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni kærlega fyrir að hafa varið seinni ræðutíma sínum í að ræða málefni landsbyggðarinnar. Ég tek heils hugar undir það, bæði með henni og hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni, að vitlaust sé gefið. Með tilliti til tekjuöflunar og auðlindanýtingar er vitlaust gefið.

Mig langar aðeins að ræða samgöngumálin við hv. þingmann. Hún ræddi það sjálf í ræðu sinni og vakti athygli á sjónarmiðum Fjórðungssambands Vestfirðinga þar sem meðal annars er minnt á þörfina fyrir nýtt framtíðarflugvallarstæði á Vestfjörðum.

Þingeyrarflugvöllur sem hefur átt að vera varaflugvöllur fyrir Ísafjarðarflugvöll hefur í reynd ekki verið nýttur sem slíkur árum saman. Það veit enginn hvar eða hvernig sú ákvörðun var tekin en af einhverjum ástæðum hefur völlurinn ekki verið notaður.

Þetta hefur náttúrlega gríðarlega mikla þýðingu fyrir uppbyggingu svæðisins og möguleika svæðisins. Svo horfum við upp á það að ár eftir ár er því frestað að bjóða út Dýrafjarðargöngin, sem eru lykilatriði varðandi allt sem heitið getur atvinnuuppbygging og búsetuöryggi og þróun á þessu svæði. Í reynd er engin samgönguáætlun í gildi hjá stjórnvöldum og hefur ekki verið í gildi síðan 2014. Hvernig horfir þetta við hv. þingmanni og hvernig sér hún framtíð svæðisins ef þetta verður svona frosið, segjum þó ekki væri nema bara næstu tvö til þrjú árin?