145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:32]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er hjartanlega sammála því að byggðirnar verði að fá að nýta þau tæki og náttúruauðlindir sem þær hafa á sínu svæði. Varðandi orkumálin eru hugmyndir um kalkþörungaverksmiðju í Álftafirði og mikil plön þar uppi. Við vitum að kalkþörungaverksmiðjan sem er í Arnarfirði hefur gengið mjög vel en það sem strandar á er orkuöryggi og afhendingaröryggi orku. Hvalárvirkjun er í nýtingarflokki og það væri auðvitað eitt sem stjórnvöld gætu gert og sýnt eitthvað á spilin með, að hleypa því verkefni af stað með stuðningi varðandi lagnir sæstrengs yfir Djúpið eða hvaða leiðir sem eru bestar og hagstæðastar í þeim efnum.

Ég vil vekja athygli á því að það eru svo mörg tækifæri á landsbyggðinni, á Vestfjörðum og auðvitað á öðrum svæðum á landsbyggðinni, (Forseti hringir.) sem verður að fara að nýta. Það verður að vera einhver slagkraftur í fjárlögum til þessara byggða og það þarf að fara lögbundnar leiðir í stað þess að það sé hipsum haps kjördæmapot, eins og virðist loða við þessa ríkisstjórn.