145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:36]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get alveg tekið undir þetta. Mér finnst stefnan í samgöngumálunum heilt yfir, hvort sem er vegagerð, flug eða hafnarframkvæmdir, hreinlega hafa verið sveltistefna frá því að þessi ríkisstjórn tók við. Þær stóru framkvæmdir sem eru núna í gangi eru ákvarðanir fyrri ríkisstjórnar og þeim var hrint af stað af henni. Þannig er veruleikinn. Núverandi ríkisstjórn hefur ekki sýnt neinn metnað í samgöngumálum eða uppbyggingu samgangna frá því að hún tók við.

Fjárlögin núna endurspegla ekki á neinn hátt að það eigi að fara að leggja einhverja fjármuni í innviðauppbyggingu um allt land. Það er ekki eins og það séum aðeins við landsmenn sem nýtum þessar fjárfestingar heldur mun koma hingað til landsins 1,3 milljónir ferðamanna, að mig minnir, á næsta ári. Þetta fólk fer allt um landið og það verður að fara um á einhverjum vegaslóðum, ófærum slóðum vítt og breitt um landið. Það er auðvitað ekki boðlegt. Við fáum gífurlegar tekjur af ferðamönnum en látum þær ekki ganga til innviðauppbyggingar eins og samgangna.

Við Vestfirðingar höfum oft horft upp á að þegar þensla verður á höfuðborgarsvæðinu og menn óttast verðbólguskot og fara að keyra allt niður af hálfu ríkisvaldsins varðandi fjármuni til uppbyggingar, til að mynda samgöngumannvirkja, þá er byrjað að skera niður eitthvað sem ekkert er fyrir. Við gjöldum fyrir þensluna á landsbyggðinni, sem höfum ekki fengið neina uppsveiflu eða hagvöxt til okkar.