145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:22]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er hrollvekjandi staðreynd sem ég horfist þó í augu við af einarðri karlmennsku að árið sem ég steig inn á þing, þá fæddist hv. þingmaður. En hvorugt okkar getur breytt því. Allan þennan tíma hefur auðvitað af hálfu ákveðinna stjórnmálaafla verið ákveðinn þrýstingur í þá átt að auka einkarekstur og síðan að breyta einkarekstri í hreina einkavæðingu. Öðrum þræði er þetta drifafl þessarar þróunar. Ég hygg þó að það hafi alltaf verið þjóðarsamstaða um að efla spítalann og eftir að hann var sameinaður á þeim stað sem hann er núna þá fannst mér það vera ljósara en strax þá, ég hygg í þann mund sem hv. þingmaður var sennilega að læra að ganga, var því fyrst lýst yfir að það ætti að byggja nýjan spítala. Menn hafa verið að slást yfir því síðan.

Í tíð síðustu ríkisstjórnar, ég vil kannski ekki segja að það hafi verið þjóðarsamstaða um þær aðgerðir sem ráðist var í en það var a.m.k. ekki andstaða á hinu háa Alþingi, þá var skorið fast mjög víða. Þegar maður horfir til baka þá mundi ég áætla að miðað við t.d. árið 2008 á föstu verðlagi hafi verið samdráttur sem nemur kannski 25%. Það er gríðarlega mikið. Ef maður skoðar síðan stöðuna núna þá kemur í ljós miðað við gögn sem Páll Matthíasson lagði fram að það vantar 2,9 milljarða til að halda í horfinu bara frá því í fyrra. Ef maður miðar við árið 2008 til ársins 2015 þá vantar 5,7 milljarða að mig minnir til að jafnstaða sé. Ástæðan er sú að þjóðinni hefur fjölgað, þjóðin hefur elst og það er kannski það sem skiptir mestu máli. Þeim hefur fjölgað sem eru yfir sjötugt, fjölgað enn meira sem eru yfir áttrætt og (Forseti hringir.) það eru þeir sem þurfa á mestri umönnun að halda. Það kostar meiri peninga og það er þess vegna sem spítalann vantar 2,9 milljarða bara til að halda í horfinu við síðasta ár.