145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:27]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir skeleggan málflutning. Sannast sagna hefði ég helst viljað staðnæmast við orðaskipti hv. þingmanns og hæstv. menntamálaráðherra hér áðan, það voru fróðleg orðaskipti fyrir ýmissa hluta sakir. Rætt var um skammtímafjárhagsþrengingar Ríkisútvarpsins annars vegar og síðan vék hæstv. menntamálaráðherra að því að annar þráður væri síðan framtíð Ríkisútvarpsins. Þetta minnir okkur á hve mikilvægt það er að taka þessa umræðu með hæstv. ráðherrum málaflokkanna. Það á ekki bara við menntamálaráðherra, það á við um heilbrigðisráðherra sem kemur ekki til þessarar umræðu þótt hans sé beðið.

Það sem ég vildi víkja að í þeim orðaskiptum sem fram undan eru við hv. þingmann eru þær deilur sem eru að rísa hér í þinginu. Það eru miklar deilur um fjárlagafrumvarpið og þær eru harðnandi. Hér kom hæstv. forsætisráðherra fram í gær og sagði að engu yrði hnikað til. Hér erum við búin að hlusta á hvern stjórnarandstöðuþingmanninn á fætur öðrum koma í pontu og segja að það væri ósæmilegt að þinginu yrði slitið nú án þess að tilteknar breytingar verði gerðar á fjárlagafrumvarpinu. Ég tek undir það. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson vék að þeim þáttum sem hann telur mikilvægasta að þessu leyti. Nú má ætla að niðurstaðan verði á endanum einhvers konar samkomulag. en hvaða þættir eru það sem hv. þingmaður leggur fyrir sitt leyti ríkasta áherslu á (Forseti hringir.) að ríkisstjórnin komi til móts við óskir stjórnarandstöðunnar?