145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:31]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek hjartanlega undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni. Krafan um afturvirkar greiðslur til lægst launaða fólksins í landinu eða þess fólks sem býr við lökust kjör er sanngirniskrafa, þetta er eini hópurinn í landinu sem ekki fengi afturvirkar bætur. Allt launafólk hefur samið um slíkt fyrirkomulag og það er þvert á réttlætisvitund okkar ef þetta yrði ekki gert. Þetta er sanngirnisháttur. Varðandi hina þættina þá nefnir hv. þingmaður RÚV, Ríkisútvarpið annars vegar og heilbrigðiskerfið hins vegar, Landspítalann sérstaklega, og svo horfum við einnig til heilsugæslunnar að sjálfsögðu og þess sem er að gerast þar. Hverjar telur hv. þingmaður yrðu afleiðingar þess ef engar breytingar yrðu gerðar á framlagi til heilbrigðisþjónustunnar annars vegar og Ríkisútvarpsins hins vegar?