145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:34]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég óskaði eftir því fyrr í dag að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra kæmi til að hlusta á ræðu mína og bregðast við spurningum frá mér. Hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hefur orðið við kalli frá þinginu sem er auðvitað sjálfsagt mál. Í sjálfu sér er undarlegt að mér skuli vera þakklæti efst í huga. Auðvitað á að vera sjálfsagt að hæstv. ráðherrar komi til þings þegar á þá er kallað, en eins og dæmin hafa sýnt hefur það ekki alltaf gerst og sjaldan í þessari umræðu. Ég er því mjög ánægð með að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra skuli vera hér kominn.

Það er tvennt sem ég vildi ræða um. Hæstv. ráðherra kom aðeins inn á Ríkisútvarpið í andsvörum fyrr í þessari umræðu. Mig langar samt aðeins að nefna Ríkisútvarpið. Ég hef orðið vör við eins og aðrir landsmenn að forusta fjárlaganefndar hefur gengið mjög hart fram þegar talað er um Ríkisútvarpið og rekstrarumhverfi þess, við tókum eftir því í umræðum um bandorm árið 2014 þegar verið var að ræða útvarpsgjaldið og að það ætti að renna að fullu til stofnunarinnar samkvæmt nýjum fjölmiðlalögum eða lögum um Ríkisútvarpið. Þegar ljóst var að gjaldið ætti allt að renna til Ríkisútvarpsins var samþykkt að lækka það niður í áföngum og það yrði 16.400 kr. á árinu 2016, færi úr 17.800 kr. Við í fjárlaganefnd höfum fengið stjórnendur og stjórn Ríkisútvarpsins á fleiri en einn fund til að fara yfir stöðuna og það má öllum vera ljóst sem hafa setið þá fundi að mikil breyting verður á starfsemi Ríkisútvarpsins ef gjaldið verður ekki áfram það sama eins og minni hlutinn hefur lagt til og reyndar hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra talaði um að nauðsynlegt sé að gera ef ekki eigi að verða miklar breytingar. Ég legg þetta hér inn. Ég veit að hæstv. ráðherra talaði hér áðan og sagði mjög skýrt að hann væri þeirrar skoðunar að það mætti ekki breyta gjaldinu. Ef það yrði gert yrðu miklar breytingar á dagskrá útvarpsins og spurning væri þá hvort það gæti sinnt sínu lögbundna hlutverki. Við vitum um kjaramálin og að hækkanir hafa orðið miklar á árinu 2015 sem væri bara sjálfstæður niðurskurður um hundruð milljónir króna. Við bætist þá þessi lækkun á gjaldinu á árinu 2016. En það virðist ekki vera stuðningur fyrir þessu, að útvarpið fái að halda óbreyttu útvarpsgjaldi, þó að það eitt og sér muni kalla á niðurskurð, heldur vill stjórnarmeirihlutinn ganga lengra og ganga í skrokk á útvarpinu ef svo má segja og heimtar breytingar.

Forusta hv. fjárlaganefndar hefur gengið mjög skýrt og hart fram í þessu máli. Sú sama forusta leggur til að húsið sem Þjóðskjalasafnið er í verði selt, eða veitt heimild til að selja húsnæði Þjóðskjalasafnsins. Ég hef sagt það hér og skrifað í minnihlutaálit að þetta sýni lítinn skilning á starfseminni, þarna sé verið að tjalda til einnar nætur með þetta mikilvæga safn þar sem skjöl eru hýst og hefur mikla þýðingu að sé aðgengilegt fyrir almenning, bæði til að grúska í skjölum og sitja í lestrarsal. Það skiptir máli fyrir stjórnsýsluna að Þjóðskjalasafnið sé miðsvæðis og skiptir líka máli fyrir fræðasamfélagið. Það skiptir máli að safnið sé í tryggu húsnæði og ekki tjaldað til einnar nætur þegar að umgjörð þess kemur.

Í heimildargreininni er talað um að heimilt sé að selja húsið og taka annað húsnæði á leigu eða kaupa annað húsnæði, þetta er svona í þoku og verður einhvern veginn. Þetta kom mér verulega á óvart. Þegar ég fór að afla mér upplýsinga um þessa stefnubreytingu, því nýbúið er að samþykkja stefnu fyrir Þjóðskjalasafnið og ég fór að fletta upp í henni, sá ég að í fyrra var samþykkt að umgjörðin yrði á Laugavegi 162, þar yrði safnið, og búið er að leggja pening í endurhönnun á því húsnæði. Þegar ég fór að skoða, grúska og spyrja kemur í ljós að hugmyndin kemur frá forustu fjárlaganefndar og er studd af meiri hluta hennar og borin hér upp af þeim. Þarna gengur forustan aftur gegn stefnu mennta- og menningarmálaráðuneytisins, gegn þeirri stefnu sem hæstv. ráðherra hefur borið uppi.

Ég vil spyrja hvað hæstv. ráðherra finnist um þetta og hvaða áhrif hann telji að þetta hafi á rekstur safnsins. Hvort hann telji ekki einmitt, ef hæstv. ráðherra skyldi nú hafa tíma til að hlusta á spurningar mínar, að umgjörðin í kringum Þjóðskjalasafnið þurfi að vera traust og horft sé til langrar framtíðar hvað það varðar. Ég hef heimsótt húsnæðið. Ég veit að það er ekki í góðu standi og þarfnast viðgerðar og endurhönnunar, en sátt hefur verið um að stefnan skuli vera í þá átt. Hvað finnst hæstv. ráðherra sem ber ábyrgð á málaflokknum þegar forusta fjárlaganefndar stekkur svona inn í málaflokkana og býður upp á breytingar sem eru á skjön við það sem hæstv. ráðherra vill? Þetta á bæði við um Þjóðskjalasafnið og heimildargreinina, auðvitað veit ég að það er bara heimildargrein, en um leið er búið að lýsa yfir ákveðinni stefnu, að fara eigi einhverja ákveðna leið. Fjárfestar fara sjálfsagt að þrýsta á um að fá húsnæðið til að byggja hótel. Mér skilst á svörum forustu fjárlaganefndar að þarna þurfi að selja húsið því að það sé á verðmætri lóð og á góðum stað fyrir ferðamannaþjónustu einhvers konar.

Ég hef áhyggjur af slíkri skammtímahugsun, bæði hvað varðar safnið, þetta eina safn sem talað er um í stjórnarskránni okkar, og líka varðandi Ríkisútvarpið. Þarna fer fram, að því er virðist gegn stefnu hæstv. ráðherra sem ber ábyrgð á málaflokknum, forusta fjárlaganefndar. Það er forusta fjárlaganefndar sem er hér með stefnu í þessum málum. Hún birtist í breytingartillögunum.

Ég vona að hæstv. ráðherra bregðist við ræðu minni.