145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:43]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er sjálfsagt mál að bregðast við ræðu hv. þingmanns. Fyrst vil ég segja að forusta fjárlaganefndar hefur verið vakin og sofin við það verk að tryggja sem best hag ríkissjóðs. Það er verkefni þeirrar þingnefndar og er alveg sérstakt, þó að það sé um leið líka verkefni allra annarra nefnda þingsins. Auðvitað skiptir mestu máli hvað varðar þá sem sitja í þeirri tilteknu nefnd, og ég hef fyrir því mikla sannfæringu, að ekkert annað gengur til þar en einmitt að sinna sem best því starfi. Síðan getur verið meiningarmunur þar á, á milli þingmanna, hvernig því er best varið og háttað. Það getur eðlilega verið og er hluti af stjórnmálunum.

En hvað varðar Þjóðskjalasafnið vil ég segja að þessi hugmynd er svo sem ekki ný. Ég hef heyrt hana áður. Ég hef ekki fengið til mín neina formlega útreikninga á þessu, en mér hefur skilist að þegar menn hafa lagt saman kostnaðinn við að flytja safnið og síðan kostnaðinn við nýtt húsnæði og borið saman við það sem mætti fá fyrir lóðina hafi niðurstaðan í það minnsta verið sú að það væri ekki hagstætt fyrir ríkissjóð að fara þá leið. En það er sjálfsagt mál að vera vakinn yfir þessu. Ef hugmyndir koma fram um betri og hagkvæmari tilhögun sem hægt er að rökstyðja sannarlega, þá er ég að sjálfsögðu tilbúinn að hlusta á það, enda er hér um að ræða, eins og hv. þingmaður nefndi sérstaklega, heimildarákvæði. Það er ekki skylda til að ráðast í þetta. Það sem ég hef þó alla vega séð hingað til er að ekki sé hagkvæmt fyrir ríkið að beita slíku ákvæði, þ.e. að selja þessa lóð og flytja safnið og kaupa nýtt húsnæði fyrir það. En með þessa byggingu og þessa starfsemi (Forseti hringir.) eins og alla aðra þarf auðvitað að gæta að því af festu og yfirvegun, sérstaklega með Þjóðskjalasafnið, en um leið líka að allri hagkvæmni.