145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:45]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég veit auðvitað hvert hlutverk fjárlaganefndar er. Það er vandasamt að halda vel á spöðunum þegar kemur að fjárhag ríkisins. En þetta er samt afar sérstakt, að sérstök tekjuöflun sé í gangi hvað þetta eina húsnæði varðar. Ef það er eina hugsunin hjá fjárlaganefnd og forustu hennar að það sé bara gott fyrir ríkissjóð að selja verðmætar lóðir og verðmætt húsnæði í miðbænum eru auðvitað fleiri hús sem ætti að líta á og önnur sem heyra jafnvel undir önnur ráðuneyti. Mér finnst afar sérstakt að horft sé bara beint á Þjóðskjalasafnið með þessum hætti. Það er alveg sama hvernig þessu er snúið, það hefur náttúrlega áhrif á þá sem stjórna og stjórnendur safnsins ef Alþingi samþykkir heimild til að selja húsnæðið. Það vekur upp spurningar. En mér heyrist að hæstv. ráðherra muni ekki vera hrifinn af því að nýta slíka heimild. En gæti hæstv. fjármálaráðherra nýtt sér heimildina? Er það fjármálaráðherra sem er að fá þessa heimild? Gæti hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra staðið uppi með að bæði hæstv. fjármálaráðherra og forusta fjárlaganefndar fari gegn nýsamþykktri umgjörð um Þjóðskjalasafnið?