145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:59]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka undir þetta með hv. þingmanni sem þekkir málið ákaflega vel, hafandi verið menntamálaráðherra. Hv. þingmaður kom inn á menningarhlutverkið. Það hefur hlutverki að gegna til að draga fram upplýsingar fyrir almenning og stuðla að umræðu um málefni, það hefur líka þetta menningarhlutverk og þjónustuhlutverk við almenning. Og það þarf að styrkja.

Við höfum ekki nefnt lífeyrisskuldbindingar sem Ríkisútvarpið er að glíma við. Við höfum talað um rekstrarvandann sem mun blasa við á árinu 2016 ef Ríkisútvarpið þarf að skera niður um hálfan milljarð. Við vitum að það verður mjög erfitt og mun hafa miklar breytingar í för með sér. En inn í framtíðina liggur líka óleyst vandamál, sem eru lífeyrisskuldbindingarnar sem hvíla á félaginu og þarf að leysa. Mér finnst mikilvægt að við gerum áætlun um það í ár eða í fjárlögunum núna, við þurfum að halda í það minnsta útvarpsgjaldinu því sama og það er núna á árinu 2015, og svo til framtíðar þurfum við að gera áætlun um hvernig á að leysa vandann sem hvílir á Ríkisútvarpinu vegna lífeyrisskuldbindinga. Alla vega verðum við að sjá til þess að útvarpið geti sinnt hlutverki sínu og að ekki sé einhver sveiflukennd stefnumörkun í kringum það eftir því hver er í forustu fjárlaganefndar hverju sinni.