145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:19]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst taka undir með hv. þm. Ögmundi Jónassyni þar sem hann sagði að rök mætti færa fyrir því að með fjölgun fjölmiðla og kannski minna fjármagni hefði fjölmiðlun á Íslandi daprast á vissan hátt. Að því sögðu þá er ég einn af þeim sem vilja standa vörð um Ríkisútvarpið og lít mjög til gæða þess efnis sem þaðan kemur, þess hlutverks sem það á að rækta, menningarlegs hlutverks og ekki síst hlutverks gagnvart landsbyggðinni. En það eru tvö atriði sem mig langar til að spyrja hv. þingmann út í, annars vegar varðandi hinar mörkuðu tekjur eða svokallaðan nefskatt. Nú hef ég heyrt hér í umræðunni að margir stjórnarandstæðingar líta svo á að þær tekjur sem komi af útvarpsgjaldinu eigi að renna beint til RÚV. Við tókum þessa umræðu líka ítrekað á síðasta kjörtímabili. Þá eins og núna runnu tekjurnar ekki allar til RÚV. Þá var uppi umræða innan fjárlaganefndar um að ekkert af hinum svokölluðu mörkuðu tekjum ætti að renna til þeirrar stofnunar vegna þess að það væri mjög ósanngjarnt að sumar stofnanir fitnuðu eins og púkinn á fjósbitanum meðan aðrar þyrftu að lúta miklum niðurskurði. Þetta var umræðan á síðasta kjörtímabili hjá meiri hlutanum sem var þá. Nú heyrist mér vera komið annað hljóð í strokkinn og spyr ég hv. þingmann út í viðhorf hans til þessa.

Svo er það atriði sem á kannski meira heima í seinni spurningu minni, það er varðandi ohf.-ið. Nú var menntamálaráðuneytið í höndum Vinstri grænna síðasta kjörtímabil. Ég hef verið þeirrar skoðunar að þetta ohf. sé röng aðferð. (Forseti hringir.) Af hverju var því ekki breytt þegar síðasta ríkisstjórn var við völd? Þá værum við ekki að ræða þessar lífeyrisskuldbindingar sem liggja eins og mara á Ríkisútvarpinu.