145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:24]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona svo sannarlega að þingmaðurinn hafi ekki skilið það þannig að ég hafi talið að eitthvað hefði breyst innan þessa málaflokks þó að síðasta ríkisstjórn hefði fengið annað kjörtímabil vegna þess að þau höfðu í rauninni nógan tíma. Það hefði kannski verið lag í niðurskurði á svo mörgum sviðum að breyta einmitt fyrirkomulaginu. Ég er sannfærður um að ef við mundum taka ohf.-ið af, opinbera hlutafélagaformið, og gera stofnunina að ríkisstofnun væri miklu auðveldara að eiga við lífeyrisskuldbindingar vegna þess að þá verða þær hluti af öðrum skuldum ríkissjóðs. Það er erfitt að fást við þetta hlutafélagaform sem ég held að hafi verið mistök á sínum tíma. Ég mundi gjarnan vilja ræða hér annað opinbert hlutafélag eins og Isavia. Þar streyma inn svo gígantískar tekjur að maður hefur varla séð annað eins. Það opinbera hlutafélag nýtir það eingöngu (Forseti hringir.) í uppbyggingu. Það hefði verið hægt að nota þá fjármuni í uppbyggingu á svo mörgum sviðum, ég nefni heilbrigðismálin sérstaklega.