145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:25]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni hvað þetta snertir, þegar hann nefnir Isavia. Jafnvel þeir sem eru hlynntir markaðsvæðingu og einkavæðingu hefðu að mínum dómi átt að sætta sig við útboð og útvistun á starfsemi innan þeirrar skeljar sem heitir Isavia, sem er fyrirtæki um rekstur á íslenskum flugvöllum. Við hefðum átt að fara þá leið þannig að það var rangt.

Hv. þingmaður vísar í mistök sem hafi verið gerð og að við hefðum haft tíma til að gera þetta og hitt. Við gerðum mörg mistök, létum margt ógert sem við hefðum gjarnan viljað að hefði verið framkvæmt. Við eigum hins vegar að horfa svolítið til framtíðar í gefandi umræðu og skoða hvar við erum sammála. Það sem skiptir máli er hver meginsjónarmiðin eru. Ég er að lýsa því að innan míns flokks er það viðhorf ríkjandi (Forseti hringir.) að Ríkisútvarpið eigi að vera ríkisútvarp og að það eigi að endurskoða þetta rekstrarform. Við eigum að sameinast um að breyta þessu.