145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:01]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef raunar aldrei skilið af hverju við þurfum að hafa þetta einhvern veginn öðruvísi þegar kemur að menningu, þegar um útvarp eða sjónvarp er að ræða, en til dæmis kvikmyndir eða eitthvað annað. Ég held að það sé bara arfleifð af gamalli hugsun. Ég tel að rétt sé að við förum yfir það og ræðum það upp á nýtt með þessi markmið í huga, þ.e. að efla innlent menningarefni; hvernig við gerum það best og hvernig við nýtum peningana best, en ekki að ríkið þurfi sjálft að standa í þessu. Það geta auðvitað verið einkaaðilar. Það er til fullt af stöðvum sem mundu gjarnan taka þetta að sér ef þeir væru ekki í samkeppni við Ríkisútvarpið, ég tala nú ekki um að þeir geti fengið það efni sem styrkt er af skattgreiðendum. Ég held því að það megi taka þá umræðu án þess að væna menn alltaf um að vilja eyðileggja þessa stofnun sem er einhvern veginn orðin heilög í huga margra. Hún er ekkert sjálfgefin í núverandi mynd. Markmiðið er ekki að halda stofnun fyrir einstaka starfsmenn.