145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:05]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt að fyrir lágu tilmælin frá ESA þegar þetta mál var í umræðu í þinginu. Ég var raunar ekki í þeirri umræðu, ég var ekki komin á þing þá, en það var mjög margt annað sem var gagnrýnt í þeirri löggjöf, eins og hv. þingmann rekur vafalaust minni til, til dæmis hvað varðar stjórnsýslulög og að hvaða leyti þau ættu ekki að gilda um ohf. og ýmislegt í því hvernig lögin voru útfærð. Það er ástæða þess að ég lagði fram frumvarp um Ríkisútvarpið sem var svo samþykkt hér á þingi, þar sem reynt var að skilgreina miklu betur hlutverk Ríkisútvarpsins, hvernig það ætti nákvæmlega að falla að ohf.-forminu, og tók flokkur hv. þingmanns mjög virkan þátt í þeirri umræðu. Það var góð og jákvæð umræða því að mér fannst okkur miða áfram í því að ná ákveðinni sátt um hlutverk Ríkisútvarpsins.

Hv. þingmaður spyr: Hefði ekki verið hægt að gera miklu betur? Það er örugglega alltaf hægt að gera betur. Ég held hins vegar að mjög mikilvægt (Forseti hringir.) skref hafi verið stigið með lögunum 2013 í því að reyna að skilgreina betur hlutverk Ríkisútvarpsins sem hv. þingmenn höfðu þá kvartað talsvert yfir að væri ekki nægilega vel skilgreint í lögum.