145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:59]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get alveg tekið undir það sem hv. þingmaður segir um prósentuhlutfall þeirra launa á hinum almenna markaði, en ég sagði að frá og með 1. janúar 2015 og til 1. janúar 2016 þegar 9,7% hefðu komið, þá hefðu laun á því tímabili hækkað um 12,7%. Ég er alveg meðvituð um það, hv. þm. Oddný G. Harðardóttir, að þrjú prósentin eru yfir árið 2015, en það stendur í 69. gr. laga um almannatryggingar hvernig eigi að bregðast við. Það stendur ekki í lögum um almannatryggingar að það eigi að greiða afturvirkt, það stendur heldur ekki í lögunum, í 69. gr., að þetta eigi að fylgja lágmarkslaunum.

Ég er með blað frá Öryrkjabandalagi Íslands til ríkisstjórnar, skrifað 22. nóvember 2011, þar sem nefnt er að hækkun bóta almannatrygginga sé ekki í samræmi við kjarasamninga. Af því að hv. þingmaður nefnir samningana frá 2011, þá segir Öryrkjabandalagið þar í bréfi að hækkun bóta almannatrygginga sé ekki í samræmi við kjarasamninga og vitnar í 69. gr. laganna. Af þessu má sjá að ætluð hækkun um 3,5% er mun lægri en ákvæði 69. gr. almannatryggingalaga segir til um. Þetta segir Öryrkjabandalagið um samningana sem gerðir voru árið 2011. Ég ætla bara að gera orð þeirra að mínum um það hvort samningarnir 2011 og það sem öryrkjar báru úr býtum þá sé betra eða verra en það sem gerist núna árið 2016.