145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:01]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Reyndar var það þannig að árið 2011 hækkuðu bæturnar samkvæmt lögum um rúm 8% og hækkuðu frá 1. júní. Það kom inn bæði prósentutöluhækkun og krónutöluhækkun í samræmi við lægstu laun. Lög um almannatryggingar eru til þess að verja kjör aldraðra og öryrkja og til að sjá til þess að þeir geti lifað með reisn og mannsæmandi lífi. Þau eru ekki til þess að halda þeim sem fátækasta hópnum í landinu, en það mun gerast núna ef þetta gengur eftir sem hæstv. ríkisstjórn vill og þeir hv. þingmenn sem hana styðja, þá verður þessi hópur langt undir lágmarkslaunum í landinu. Núna um áramótin 2014 var hann 1,6%, þeir sem voru hæstir, yfir lágmarkslaunum. Nú er ég auðvitað að tala um þá sem eru ekki (Forseti hringir.) með tekjur annars staðar frá, því að það er sá hópur sem við erum að tala um hér.

Ég vil spyrja hv. þingmann aftur hvort hún telji að það megi (Forseti hringir.) ekki gera betur en lögin segja til um ef réttlætiskenndin og sanngirnin (Forseti hringir.) og staðan í þjóðfélaginu kallar á það?