145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:05]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég tel að hægt sé að koma upp eftirlitsstofnunum hjá Samtökum atvinnulífsins og annarra sem sjá um eftirlit innan þeirra vébanda. Ég geri mér hins vegar alveg grein fyrir að stjórnsýslulögin eins og þau beinast að þessum stofnunum eru fyrir hendi, en ég er þeirrar skoðunar að það sé hægt. Ég vil láta reyna á slíkt vegna þess að mér þykir, virðulegur forseti og hv. þingmaður, þessi eftirlitsiðnaður blása hér út, mér finnst það óhuggulegt hvernig hann blæs út. Ef til er einhver önnur leið til að koma í veg fyrir þennan útblástur, ef við megum orða það svo, þá vildi ég gjarnan sjá hana og hvernig hún væri fær og gæti þá beint spurningu minni til baka til hv. þingmanns. Sér hv. þingmaður ekkert athugavert við að þessar eftirlitsstofnanir blási í raun og veru svona út á mjög skömmum tíma?