145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:32]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er sammála hv. þingmanni. Ég held nákvæmlega að þetta sé að gerast. Ég hef tekið dæmi í umræðunni hér og í blaðaskrifum um fjármagnsstreymi í gegnum slíka kanala. Og þar á ég við Domus Medica, myndgreininguna þar. Hvernig sjúklingar, eða fólk sem þurfti að fara í myndatöku, var sent þangað frekar en inn á Landspítalann sem gat ekki annað eftirspurninni vegna niðurskurðar. Þá er fólkið sent inn í Domus Medica með peningana á þeirri forsendu að fjármagnið fylgir sjúklingi og á endanum er Domus Medica með mun betri tækjakost en Landspítalinn. Ég er ekki að segja þetta til að tala niður Domus Medica. Alls ekki. Þar er góð þjónusta og ágætt starfsfólk sem er þar starfandi. En ég er að tala niður þau stjórnvöld sem forgangsraða á þennan hátt.

Ég óttast einmitt, eins og hv. þingmaður tekur undir, að nákvæmlega þetta sé að gerast. Það er skrúfað fyrir eða þrengt að almennu þjónustunni, almennum stofnunum, en liðkað til gagnvart einkareknum stofnunum. Við höfum heyrt það og heyrðum það hér við umræðuna — og ég skal játa að mér rann svolítið í skap hér áðan, og kannski einum of, en það er bara innstæða fyrir því, þegar talað er um báknið, hið mikla bákn, að draga þurfi úr því í umræðu um þessar stofnanir, um menntakerfið og um heilbrigðiskerfið jafnvel þó að vísað sé í sendiráð o.s.frv.

Þetta er samhengi umræðunnar að stærsta stofnunin, og þá væntanlega mesta báknið, er Landspítalinn og heilbrigðiskerfið. Og við erum að takast á um það hér hvort nægilegt fé sé veitt þangað eður ei. Ég fagna því að hv. þingmaður og ég skulum vera á einu máli um þetta enda kemur það mér ekki á óvart í ljósi sögu þessa hv. þingmanns gagnvart velferðarþjónustunni.