145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:34]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni hlýleg orð í minn garð eins og maður segir. En þetta er nefnilega hárrétt og við sjáum þetta birtast mjög skýrt í fjárlagafrumvarpinu, meðal annars í þeirri staðreynd að í samningum við Landspítalann fær Landspítalinn til dæmis ekki metið aukið álag vegna mannfjöldaaukningar. En það er nákvæmlega það sem er metið í samningunum við sérgreinalæknana, sérfræðingana og einkaþjónustuna. Þannig að það sem er tekið gilt og einkaþjónustunni er talið til tekna það gildir ekki þegar samningurinn er við Landspítalann sem er ríkisrekinn.

Það er dulið niðurbrot í kerfinu sem fær að viðgangast af því að hugmyndafræðin er sú að markaðsvæða. Þetta er alvarlegur hlutur. Við verðum líka að gera okkur grein fyrir því að heilbrigðisþjónusta á Íslandi í dag er alls ekkert ókeypis þjónusta. Fólk er að borga tugi og jafnvel hundruð þúsunda í heilbrigðisþjónustu.

Ég hitti mann úti í Danmörku um daginn sem sagði mér af því að konan hans hefði greinst með krabbamein fyrir nokkrum árum. Þau eru búin að ganga í gegnum mikinn og langvarandi læknisferil úti í Danmörku. Þeim dettur ekki í hug að flytja heim vegna þess að þau hafa aldrei þurft að draga upp budduna, aldrei þurft að borga eina einustu krónu í hinu danska velferðarkerfi. Sjúklingur í sambærilegri stöðu á Íslandi væri búinn að borga tugi ef ekki hundruð þúsunda fyrir sambærilega meðferð.

Svo er nú sárast af öllu, sem ég hef ekki rætt, það er sú hugmyndafræði sem er komin inn í kerfið að það eigi að fara að miða við fjölda sjúklinga en ekki ástand þeirra þegar metið er hvort þeir eigi að fá lífsbjargandi lyf í heilbrigðisþjónustunni okkar. Og þá finnst mér orðið ansi langt gengið.