145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:41]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni góða yfirferð um þetta byggðafjandsamlega mál sem tekin var ákvörðun um og afleiðingarnar eru að koma í ljós. Við þurfum sem fyrst að geta snúið það niður aftur og tekið það til baka.

Mig langar að koma inn á annað. Það varðar orkujöfnun í landinu. Þingmenn stjórnarmeirihlutans hafa barið sér á brjóst í þessari umræðu, sérstaklega þingflokksformaður Framsóknarflokksins, um að búið sé jafna að fullu orkukostnað í landinu á köldum svæðum.

Við þekkjum það að tekin hefur verið ákvörðun, stigin skref í þessa átt. Það byrjaði á síðasta kjörtímabili og hefur verið haldið áfram varðandi niðurgreiðslur á húshitun. Enn vantar mikið fjármagn til þess að uppfylla það að fullu. Samþykkt var á Alþingi jöfnun kostnaðar við dreifingu á raforku innbyrðis innan dreifiveitna. En stóriðjan slapp undan því að jafna dreifingu á raforku. Það voru eingöngu dreifiveiturnar sjálfar svo það vantar enn þá fjármuni inn í það, einhverjar 65 millj. á ári, til að unnt verði að greiða niður þessa dreifingu og það vantar líka 215 millj. kr. inn í niðurgreiðslu á húshitun og gæti verið meira, en það er að minnsta kosti sú upphæð.

Mig langar að heyra í hv. þingmanni um þetta. Nú veit ég að hún þekkir vel húshitunarkostnað á Vestfjörðum og Ísafirði eins og ég sem var að fá uppgjör fyrir árið á húsi mínu á Suðureyri. Þar kostar rafmagn og hiti eitthvað tæpar 400 þús. kr., sem er auðvitað gífurlega há upphæð og langt í frá að það nálgist einhverja jöfnun á landsgrundvelli varðandi húshitunarkostnað og rafmagnskostnað.