145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:45]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Umræðan hér í dag og í kvöld um fjárlagafrumvarpið hefur að mörgu leyti verið góð, að mínu mati. Hún hefur sveiflast til, farið í lægðir og hæðir, hefur nánast skrapað botninn en jafnframt gerst nokkuð háfleyg. Það er ekki gott þegar hún skrapar botninn, þegar menn gerast of stóryrtir í garð annarra þingmanna. Er ég þar ekki undanskilinn sjálfur og þykir mér það miður. Ekki síst sjálfs mín vegna en einnig okkar allra vegna er mjög mikilvægt að umræðan um fjárlög og reyndar hvað sem er á Alþingi sé málefnaleg. Við erum að taka örlagaríkar ákvarðanir og það skiptir máli að við stuðlum að upplýstri og málefnalegri umræðu um alla þætti fjárlaganna, hvort sem eru fjárlögin sem við eigum við eða annað. Fjárlögin geta hins vegar verið mjög örlagarík. Það skiptir miklu máli fyrir heilbrigðiskerfið hvort það fær nægilegt fjármagn til að sinna þeirri þjónustu sem við öll viljum og ætlumst til að það sinni, að Landspítalinn rísi undir þeim lagaskyldum sem á honum hvíla, að hann geti annað aukinni eftirspurn. Það hefur verið sýnt fram á það af hálfu forsvarsmanna Landspítalans að eftirspurnin eftir þjónustu hans eykst sem nemur 1,7% á ári hverju vegna fjölgunar þjóðarinnar og öldrunar. Það samsvarar því að til rekstursins þyrftu að ganga 930 milljónir árlega einvörðungu til að rísa undir þessari fjölgun. Þetta gerir fjárlagafrumvarpið ekki og það er ekkert undarlegt að mönnum verði heitt í hamsi þegar síðan er vísað til ríkisrekstursins heildstætt og talað um að báknið á Íslandi sé orðið of stórt. Þá ætlast menn að sjálfsögðu til þess, og ég geri það, að þingmenn geri grein fyrir því nákvæmlega hvað það er. Að sama skapi er óásættanlegt að hæstv. heilbrigðisráðherra komi ekki til umræðunnar og taki þátt í henni á sama hátt og hæstv. menntamálaráðherra brást við kalli þingsins um að gera.

Hvað gerist þegar ráðherrann kemur til umræðunnar og tekur þátt í henni? Hún gerbreytir um svip. Öll umræðan sem fram fór hér í kvöld um Ríkisútvarpið var málefnaleg, innihaldsrík og gefandi. Ég hygg að málstaður hæstv. menntamálaráðherra hafi styrkst. Við styrktumst í þeirri trú að þær tillögur sem við leggjum fram séu af hinu góða og hefðum gjarnan viljað að fleiri meirihlutaþingmenn hefðu verið við þingumræðuna, lagt við hlustir og horfst í augu við þá staðreynd að ef frumvarpið fer í gegn óbreytt mun hið sama gerast í Ríkisútvarpinu og á Landspítalanum, það mun leiða til samdráttar í starfsemi. Það mun leiða til uppsagna hjá Ríkisútvarpinu og samdráttar í rekstri ef ekki verður gerð breyting á framlagi til Ríkisútvarpsins. Þetta er bara staðreynd og við stöndum frammi fyrir því eftir nokkra daga, ekki nokkrar vikur. Þetta er veruleikinn sem við verðum öll að horfast í augu við. Þegar síðan kemur fram þingmaður og segir að vegna þess að gerður hafi verið samningur á sínum tíma sem hafi reynst dýrari en menn ætluðu í tengslum við dreifikerfið eigi það að bitna á starfsmönnum Ríkisútvarpsins og starfsemi þess. Mér finnst ekki ásættanlegt að leggja málin þannig upp.

Eitt vil ég nefna í tengslum við umræðuna um öryrkja og aldraða, nokkuð sem snýr kannski ekki að fjárlögunum sem slíkum en að langtímafyrirkomulagi við ákvörðun um laun og kjör. Eins og við þekkjum hafa núna Kjaradómur og kjaranefnd úrskurðarvald gagnvart tilteknum hópum í þjóðfélaginu, ráðherrum, alþingismönnum, dómurum og forseta. Prestar eru þar líka undir. Síðan semja stéttarfélögin um laun á vinnumarkaði í kjarasamningum en við höfum ákvörðunarvald yfir bótum almannatrygginga. Við ákvörðum kjörin hjá öryrkjum og lífeyrisþegum og þess vegna hafa menn réttilega vísað til þess að við séum eins konar kjararáð gagnvart öryrkjum og öldruðum.

Mig langar til að rifja upp, nánast til gamans eða til upplýsinga og kannski til endurvinnslu, að árið 1995 lagði ég fram þingmál, tillögu til þingsályktunar um að leggja niður Kjaradóm og kjaranefnd. Ég vildi að þetta yrði sett inn í annað fyrirkomulag þar sem skipuð yrði launanefnd á vegum þingsins en þingið tæki síðan endanlega ákvörðun um kjör allra þeirra sem heyrðu undir þessa nefnd, þar með talið ráðherra og þingmanna. Við ákvörðuðum með öðrum orðum okkar eigin kjör. Hver er röksemdin fyrir því að hafa þetta þannig? Hún er sú að við allar ákvarðanir af þessu tagi þarf að vera hægt að draga menn til ábyrgðar. Þegar stéttarfélögin gera kjarasamninga eru þeir bornir undir atkvæði bæði atvinnurekendamegin og af hálfu launamanna. Það er hægt að fella samningana. Það er hægt að fella þá í lýðræðislegum kosningum innan verkalýðshreyfingarinnar sem ekki þykja standa sig í því efni. Kjaranefnd og Kjaradómur eru hins vegar ósnertanleg fyrirbrigði. Enginn getur hreyft við þessum aðilum og mér finnst eðlilegt að þessar byrðar séu settar á okkur. Ég held að það væri fróðlegt þegar að því kæmi að á fimmtudegi greiddum við atkvæði um launakjör alþingismanna og á föstudeginum um kjörin sem skömmtuð væru öryrkjum og öldruðum. Þá heyrði ábyrgðin til þar sem hún á að heyra til, hjá okkur, hjá löggjafanum og hjá fjárveitingavaldinu. Okkur er hægt að draga til ábyrgðar. Við getum ekki firrt okkur ábyrgð undir slíku fyrirkomulagi. Mig langaði til að nefna að ef til vill erum við í röngum farvegi hvað varðar ákvarðanir af þessu tagi.

Í greinargerð sem ég setti fram með þessari þingsályktunartillögu árið 1995, skömmu eftir að ég kom inn á þing, vísaði ég til afstöðu heildarsamtaka opinberra starfsmanna sem höfðu lýst andstöðu við það fyrirkomulag sem komið var á fót 1992 og var síðan lítillega endurskoðað 1995. Ég vísaði jafnframt til þess að á Norðurlöndunum hefðu þjóðþingin meira afgerandi aðkomu að launakjörum annarra en þeirra sem væru háðir stéttarfélögum í samningum milli þeirra annars vegar og atvinnurekanda hins vegar. Ég held að þetta gæti stuðlað að því að við kæmumst að heilbrigðari niðurstöðu og betri gagnvart okkur sjálfum en ekki síður gagnvart þeim skjólstæðingum okkar sem núna eru undir okkar forræði, þ.e. tekjulægsta fólkinu á Íslandi, sem eru úr röðum öryrkja og aldraðra.