145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:00]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég bjó einmitt í Danmörku og þekki af eigin raun að það kostaði ekki neitt. Umræðan þar var reyndar sú að ef einhver þjónusta er algerlega ókeypis geti verið ágætt að fólk geri sér grein fyrir að þjónustan kostar. Það var sjónarmið í þessu en ég skal ekki fara út í það hér.

Varðandi Landspítalann eru húsnæðismálin í ólestri. Það eru vonbrigði hvað okkur virðist ekki ætla að takast að setja niður eitthvert plan. Það er enginn að fara að byggja Landspítalann á morgun en mér finnst framhaldið heldur óljóst þó að það sé jákvætt að menn séu farnir að setja einhverja peninga í að hanna meðferðarkjarnann. Það er mikilvægt.

Við erum að tala um eina 50 milljarða sem fara í Landspítalann á næsta ári sem er gríðarlegt fé. Ég er ágætlega sátt við þá ákvörðun meiri hlutans að taka 30 milljónir til að gera rekstrarúttekt á Landspítalanum. Ég held að það sé nauðsynlegt. Ég ímynda mér að það sé erfitt fyrir ráðuneytin sem eru ekkert ofmönnuð að hafa fulla yfirsýn yfir starfsemi Landspítalans. Ég held reyndar að menn séu að gera ótrúlega hluti fyrir lítið fé. Það hlýtur samt alltaf að vera okkar verkefni að reyna að sjá hvort einhvers staðar sé hægt að hagræða án þess að það bitni á þjónustunni og reyna að fá sem mest fyrir peninginn. Ég vona að eitthvað komi út úr því.

Ég hef áhyggjur af húsnæðismálunum, við erum ekki að segja að eftir fimm ár munum við sjá meðferðarkjarnann og að eftir tíu ár verði eitthvað annað búið að gerast. Var eitthvert slíkt plan í gangi eða hvernig lítur þetta út frá sjónarhóli hv. þingmanns? Var hætt við eitthvert plan? Hvernig lítur þetta út?