145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:04]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu þar sem hann fór yfir margt og mikið. Það sem mér fannst eiginlega áhugaverðast í ræðu hans var að hann talaði um hversu mikið málefnalegri umræðan hefði verið þegar hæstv. ráðherra mætti á svæðið til þess að tala um þann málaflokk sem við þurfum að vita meira um. Ég velti því fyrir mér, sér í lagi af því að hv. þingmaður kom inn á það hvernig laun þingmanna eru ákvörðuð: Er það fyrirkomulag sem við gætum komið aftur á?

Fjárlagaumræðan er að breytast og ég veit að hv. þingmaður hefur rætt það í þessum þingsal hvernig við ræðum fjárlögin. Sú umræða er miklu pólitískari en hún var.

Núna eru pólitísk deilumál sem hægt er að leysa úr í gegnum fjárlögin. Er þá ekki bara góð leið að beina athyglinni að ákveðnum liðum fjárlaganna og reyna að hafa ráðherra viðkomandi málaflokks viðstaddan þann daginn? Gætum við þá ekki reynt að skipta fjárlagaumræðunni í jafn marga daga og fjöldi ráðherra er þannig að mögulegt væri að fá jafnvel betri umræðu um fjárlögin og málefnalegri svör frá ráðherrunum strax? Þá væri hægt að undirbúa sig betur og markvissar undir hvern fjárlagalið og málaflokk fyrir sig. Ég hugsa að það mundi breyta því hvernig við tökum á þessum málum því að núna tökum við óskipulega á þessu, en mér finnst alveg full ástæða til að ræða fjárlögin vel. Ég held að það skipti sköpum að reyna að koma ráðherrum málaflokkanna inn í þingsalinn til að svara okkur.