145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:08]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mjög mikilvægt að við tökum umræðu um það hvers eðlis fjárlög eiga að vera. Þingmaður benti á að ráðherrar væru einungis viðstaddir 1. umr. þótt flestir þingmenn hafi ekki haft tök á því að fara í gegnum fjárlögin fyrr en í 2. umr. 1. umr. verður því alltaf svolítið yfirborðskennd. Ég skil því ekki alveg hugsunina á bak við það, sér í lagi af því að ég held að umræðan verði miklu skýrari fyrr og miklu hnitmiðaðri og þar af leiðandi styttri ef ráðherra er viðstaddur 2. umr. Ég held að það sé nokkuð sem við þurfum að íhuga fyrir komandi ár, sérstaklega í ljósi þess að opinber fjármál munu ábyggilega gjörbylta því hvernig við stöndum að því að ræða fjárlög.

Mér þykir líka svolítið einkennilegt að verið sé að varpa allri ábyrgðinni og vinnuálaginu á hv. formann fjárlaganefndar. Mér finnst það í raun ekki alveg sanngjarnt og það er ekki sanngjarnt að einhver einn aðili hafi svona víðtæka yfirsýn yfir alla málaflokka allra ráðuneyta, allar breytingarnar. Það er náttúrulega gífurlega mikil ábyrgð sem fylgir því. Mér þætti eðlilegra, með tilliti til þess að létta starfsálaginu af fjárlaganefnd, að ráðherrarnir tækju sig til og væru hér í þingsalnum og svöruðu spurningum okkar þótt ekki væri nema brot úr degi. Sömuleiðis ætti að reyna að helga desembermánuð fjárlagavinnunni yfir höfuð og sleppa nefndafundum eins og hægt er. Við ættum þá frekar að hafa þá í byrjun janúar, það er ekki eins og við þurfum endilega sex vikna jólafrí eins og er á dagskránni.