145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:23]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa yfirferð hjá hv. þingmanni, enda alltaf þörf á því að reyna að skoða aðeins betur um hvað er verið að ræða í þessum fjárlögum. Hins vegar tók ég eftir því að hún minntist ekkert á fangelsismálin en meiri hluti Alþingis leggur til að við aukum fjármuni til fangelsismála og þá sér í lagi Fangelsismálastofnunar um 45 milljónir. Ef mig minnir rétt eru um 30 milljónir sem fara til að standa straum af kostnaði við að flytja inn í nýtt húsnæði á Seltjarnarnesi.

Nú er þannig mál með vexti að mikið af þeim byggingum sem eru notaðar undir fanga á Íslandi eru ónýtar, það er ekki annað hægt að segja en það. Vinnuskúrinn eða þar sem fangar á Litla-Hrauni geta stundað vinnu míglekur. Hann er varla fokheldur og það er ekki að sjá að verið sé að gera neinar sérstakar ráðstafanir til að koma til móts við það. Það eru einhver framlög en þau virðast beinast að yfirstjórn og umgjörð fangelsisins en renna kannski ekki til fanganna sjálfra. Það sem er náttúrlega alvarlegast í þessu er að fangar fá ekki nægilega betrun á þeim kjörum sem fangaverðir eru á akkúrat núna.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún viti um fleira sem er að koma inn í þennan málaflokk annað en þessar 45 milljónir aukalega, því að það vantar um það bil 80 milljónir upp í milljarð til að gera vel við þennan málaflokk samkvæmt hæstv. innanríkisráðherra.