145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:38]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir það og við sjáum það líka núna þegar hagur ríkisins er smám saman að vænkast, þó að undirliggjandi rekstur sé ekki orðinn stöðugur, þá er staðan kannski að versna hjá sumum sveitarfélögum. Það var eitt af því sem við heyrðum núna. Það er alveg ljóst — miðað við þau verkefni sem færð hafa verið yfir til sveitarfélaga, og vilji er til að fjölga þeim, og það hefur komið fram hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga — að afar mörg verkefni eru á svokölluðu gráu svæði og grái listinn þeirra lengist bara. Við erum að setja íþyngjandi reglur sem ekki fylgir alltaf fjármagn með þó að kostnaðarmat eigi að liggja fyrir. Mér hefur fundist mjög lengi, hafandi setið í sveitarstjórn, að fjármagnstekjuskattur einstaklinga eigi að renna til sveitarfélaganna.

Eins og hv. þingmaður bendir á er fólk að þiggja þjónustu en er ekki að borga útsvar. Mér finnst það mjög bagalegt og það hefur færst í aukana — og gerðist náttúrlega sérstaklega fyrir hrun þegar tölur voru orðnar alveg himinháar — að allt of margir fari í að borga fjármagnstekjuskatt en greiddu ekki til sveitarfélaganna. Það sama á við um fleiri skattstofna sem við þurfum að skoða.