145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:40]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Mig langar að byrja á því að gleðja hæstv. forseta með því að segja að ég tel að hann hafi stjórnað fundi hér óaðfinnanlega. Þó að mér finnist hann kannski svolítið syfjulegur, enda farið að líða töluvert að nóttu, fer það honum vel að vera með þennan ráðsetta glampa í augum þegar hann stýrir óstýrilátum þingheimi sínum.

En mig langar líka til að gleðja hann með öðru. Ég tel að sá kvöldfundur sem við höfum átt hér hafi verið þinginu til sóma. Hér hafa á köflum verið leiftrandi umræður. Það eru tveir til viðbótar sem ég ætla að hrósa sérstaklega af því að ég er í svo jákvæðu stuði, fyrir utan það hvað það gleður mig að sjá hv. þm. Höskuld Þórhallsson, en ég tel að þingmenn stjórnarliðsins hafi hér í kvöld tekið þátt í umræðum af málefnalegum þrótti og að það hafi bætt umræðuna. Ég tel að enn eigi það við sem hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson sagði í ógleymanlegustu ræðu vikunnar í gær að enn væru menn að halda ræður sem bættu umræðuna og leiddu fram ný rök. Ég var ánægður með það og mér þótti það mannsbragð þegar hæstv. menntamálaráðherra kom hingað til umræðunnar að ósk þingmanna og sat undir henni og tók þátt í henni með ræðum og útskýringum af sinni hálfu.

Ég vil líka segja að mér þótti ræða hv. þingmanns og þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins, Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, vera málefnaleg og góð þó að ég væri auðvitað í meginatriðum ósammála henni.

Ég hef ekki góða reynslu af vopnaviðskiptum við hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur. Hún er dugleg að snoppunga stráka og ég hætti mér yfirleitt ekki inn fyrir of þröngan radíus hennar og ég viðurkenni að ég lagði ekki í að koma hér í andsvör við hv. þingmann. En úr þessari hæfilegu fjarlægð sem ræðupúltið veitir mér vil ég samt sem áður víkja nokkrum orðum að ræðu hennar.

Eðlilega sagði hún, trú kjarna sjálfstæðisstefnunnar, að hún hefði viljað sjá meira aðhald á ýmsum sviðum í því fjárlagafrumvarpi sem við hér ræðum. Ég lái henni það ekki. Það sem er markverðast við það fjárlagafrumvarp er að þrátt fyrir hið mikla góðæri sem ríkir skilar þessi ríkisstjórn þriðja árið í röð nánast engum afgangi sem nemur. Ég kalla það ekki afgang þó að af 700 milljörðum séu 10 milljarðar í afgang. Það er ekkert sem ég og hæstv. forseti, sem hér situr bak mér, hefðum á sokkabandsárum okkar í fyrra ríkisstjórnarsamstarfi talið ýkja merkilegt.

En ég vildi hins vegar spyrja hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur, ef hún heyrir mál mitt, hvort henni þyki það ekki töluverð þverstæða að segja á annað borðið að hún hefði gjarnan viljað sjá meira aðhald í ríkisrekstrinum, en á hitt borðið liggur það algerlega ljóst fyrir að hv. þingmaður ætlar sér að styðja hér frumvarp þar sem gert er ráð fyrir mörgum nýjum stofnunum.

Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, sem kvartar undan því að verið sé að eyða of miklu, sagði við hv. þm. Ögmund Jónasson að það væri of mikið af fitulögum á ríkisbúknum, en hún ætlar samt að greiða atkvæði með því að opna eigi nýtt sendiráð í Strassborg. Var það ekki einmitt sá sem hér heldur sína stuttu ræðu úr þessu púlti núna, þá sem utanríkisráðherra, sem lokaði sendiráðinu í sparnaðarskyni vegna þess að við töldum á þeim tíma að fjármagni ríkisins væri betur varið annars staðar? Er það ekki rétt munað hjá mér að einnig sé verið að búa til nýtt embætti sem heitir embætti húsameistara? Það ætlar hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir líka að styðja með sínu atkvæði. Og einnig ætlar hún, væntanlega ekki með glöðu geði en ætlar samt, að styðja hér fáránlegustu tillöguna af þeim öllum sem er sú að setja á stofn Stjórnstöð ferðamála. Hví segi ég það að þar sé um að ræða fáránlegustu hugmyndina af þeim öllum? Það er vegna þess að við vitum það öll, ég og afgangurinn af þessum vel skipaða þingsal, að það eru tvær aðrar stofnanir sem eiga að sinna ferðamálum. Þurfum við þá þriðju? Nei. Það mætti með réttu segja, hv. þm. Ögmundur Jónasson, að vissulega sé þetta fitulag sem ríkislíkaminn mætti vel án vera. Þar hljótum við að geta verið sammála. (ÖJ: Sammála.) En þetta vildi ég segja vegna þess að ég taldi rétt að svara þessu í ræðu hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur. Það var málefnaleg ræða en þetta var hin skerandi þverstæða í máli hennar. Á sama tíma og hún taldi að engin sérstök þörf væri að ganga lengra til að bæta hag aldraðra og öryrkja er hún samt til í það með atkvæði sínu að þenja ríkið út í lúxus eins og nýtt sendiráð, eins og þriðju stofnunina á sviði ferðamála og nýtt embætti húsameistara.

Sú umræða hefur mér fundist kristalla algerlega meginkjarna þess pólitíska ágreinings sem ríkir á millum ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar, að minnsta kosti hluta stjórnarandstöðunnar. Í fyrsta lagi liggur það alveg ljóst fyrir að stjórnarandstaðan er andsnúin því með hvaða hætti áfram er þjösnast á Ríkisútvarpinu. Þar sýnist mér sem hæstv. menntamálaráðherra eigi dygga stuðningsmenn í stjórnarandstöðunni. Ég vil nota þetta tækifæri og bjóða hæstv. menntamálaráðherra Illuga Gunnarsson velkominn í hóp þingmanna stjórnarandstöðunnar vegna þess að hann á þar vísan stuðning. Ég er líka viss um það að sú svinna kona, sem nú gengur í salinn og ég hef að hluta til eytt fullstórum parti af ræðu minni í að mæra þó að ég hafi líka mælt henni gegn, vill í hjarta sínu styðja baráttu hæstv. menntamálaráðherra og stjórnarandstöðunnar fyrir því að fá aukið fé í Ríkisútvarpið. Mér fundust rök hæstv. menntamálaráðherra vera leiftrandi snjöll og honum fór eins og mörgum öðrum, eins og Sál á veginum til Damaskus, að hann sneri af villu síns vegar vegna þess að hann lýsti því hér einarðlega yfir að hann hefði verið annarrar skoðunar fyrir fram. Hann sagði: Það komu fram ný rök og breyttar aðstæður. Nýju rökin voru þau að í ljós kom að dreifikostnaðurinn var miklu meiri en menn töldu áður. Nýju aðstæðurnar voru þær að laun sem samið var um voru miklu hærri en gert hafði verið ráð fyrir af hálfu ríkisins. Nýjar aðstæður, ný rök, hann skiptir um skoðun. Ég segi bara: Ég tek ofan fyrir fólki sem skiptir um skoðun. Ég hef margoft gert það sjálfur.

Í öðru lagi er það Landspítalinn. Þar er ég til dæmis og formaður þingflokks sjálfstæðismanna, að því er virtist á ræðu hennar, algerlega ósammála. Ég er þeirrar skoðunar að þau rök sem hinn vaski forstjóri Landspítalans, Páll Matthíasson, flutti fyrir máli sínu, sýni það frá öllum hliðum að það er rétt til að halda í sama horfi og í fyrra. Miðað við aukinn fólksfjölda, miðað við fjölgun túrista og líka miðað við elnandi aldur þjóðarinnar þarf 2,9 milljarða til að halda í horfinu. Og þó að ég sé sammála hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur um nauðsyn aðhalds þá finnst mér það samt ekki ofrausn að veita Landspítalanum, hugsanlega mikilvægustu stofnun þjóðarinnar, þessa fjármuni, meðal annars út af því með hvaða hætti skorið var niður til Landspítalans meðan við sigldum í gegnum kreppuna og með tilliti til þess hvernig aðstæður eru í samfélaginu, blússandi góðæri.

Í þriðja lagi er það auðvitað hinn harði ágreiningur sem er millum okkar í stjórnarandstöðunni og stjórnarliðsins um aldraða og öryrkja. Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir sem situr hér í salnum og mænir á mig sínum hvössu augum, sem ég kikna þó ekki undan að þessu sinni, virtist telja það að aldraðir og öryrkjar byggju við hlut sem að minnsta kosti væri óþarft að bæta að svo stöddu. En er það þannig að hægt sé að ætlast til að menn geri sér það bara að góðu að lifa á strípuðum bótum, á 172 þús. kr. þegar búið er að taka frá því í skatta? Gæti hv. formaður þingflokks sjálfstæðismanna lifað af slíku? Ég dreg það í efa. Ekki gæti ég það, svo mikið er víst.

Við skulum heldur ekki gleyma því að þegar Sjálfstæðisflokkurinn ber sér á brjóst, eins og allmargir hafa gert hér í umræðunni, og segja að það hafi verið aukin svo mikið framlög til aldraðra og öryrkja á þessu kjörtímabili að þegar grannt sé skoðað þá sé hækkunin á öllu kjörtímabilinu 10 þús. kr. — skitinn 10 þús. kall, leyfi ég mér að segja, til aldraðra og öryrkja þegar búið er að taka frá skatta. Við skulum ekki gleyma því að hækkun matarskattsins um síðustu áramót tekur til baka um það bil 4 þús. kall af því. (Forseti hringir.) Því segi ég það í lok ræðu minnar, sem er hugsanlegt að verði síðasta ræða mín á þessari nóttu (Forseti hringir.) því að ég þarf eins og aðrir menn að sofa, að ég skora á stjórnarliðið að taka undir tillögu stjórnarandstöðunnar (Forseti hringir.) um að bætur til aldraðra og öryrkja — við erum báðir senn að fara í þann hóp — verði afturvirkar til l. maí.