145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:09]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið við andsvarinu. Mér finnst margt reyndar í máli hans sem fer ekki alveg saman. Meðan við erum gagnrýnd í meiri hlutanum fyrir að hafa rýrt tekjustofnana þá sýnist mér á öllu að það sem stjórnarandstaðan er að leggja til sé aukin skattbyrði á fyrirtæki úti á landi, eins og ég hef bent á, sem mun svo að sjálfsögðu rýra þann tekjustofn sem þau fyrirtæki eru að skila í arð og hagnað í ríkissjóð.

Ég gerði athugasemdir við það að við værum gagnrýnd fyrir að skila litlum hagnaði en ég get ekki séð að stjórnarandstaðan ætli að bæta um betur þar og skila meiri hagnaði. Ég hef ekki séð neitt annað en að hún sé fyrst og fremst með meiri útgjaldatillögur og aukna þenslu. Ég hef áhyggjur af því. Ég verð að segja fyrir mína parta að þó mér þyki margt gott í máli hv. þingmanns og sérstaklega að hann hafi skorið niður í utanríkisþjónustunni, eitthvað sem hv. þm. Ögmundur Jónasson brást svona frekar illa við hér áðan þegar það var rætt, (Forseti hringir.) þá er stjórnarandstaðan óábyrg. Mér finnst hún vera óábyrg og ég hef áhyggjur af því.