145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:10]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar ekki að standa hérna og monta mig gagnvart hv. þingmanni, en hann er að tala við mann með reynslu. Ég nefndi honum mínar eigin tölur. Hvað gerðist í tíð fyrri ríkisstjórnar? Lokað var fjórum sendiskrifstofum sem eru ígildi sendiráða og tveimur sendiráðum. Og svo að það liggi líka alveg ljóst fyrir átti að loka þriðja sendiráðinu en þá var það fjárlaganefnd og fólk í minni hlutanum, þ.e. í núverandi stjórn, sem lagðist þungt gegn því og ég hlustaði auðvitað á Alþingi og hætti við að loka því, bara svo það liggi alveg ljóst fyrir.

En auðvitað er það þannig að ég tel skipta mjög miklu máli að lækka nafnverð skulda ríkisins, þá lækkar vaxtabyrðin, þá sparast ákaflega mikið en það er ekki að gerast. Það kemur fram á mörgum stöðum í nefndarálitinu, sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir ber ábyrgð á, að það verður ekki gert næstu þrjú árin og það rímar alveg við ríkisfjármálaáætlunina. Það er stóri gallinn. Við höfum tillögur um (Forseti hringir.) hvernig ætti að efla tekjur ríkissjóðs, ekki veikja þær, og enn og aftur segi ég: Svona er ég klæddur, svona er ég, ég hef þennan feril og fortíð, og okkur tókst það.