145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:32]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég vildi fyrst inna þingmanninn eftir því sem fram hefur komið hjá allnokkrum stjórnarþingmönnum hér á undanförnum dögum þar sem því hefur verið haldið fram úr ræðustólnum að víst sé verið að hækka lífeyri aldraðra og öryrkja jafn mikið og með sama hætti og laun annarra í landinu, og ekki síður það sem ég held að hafi komið fram hjá hv. þm. Brynjari Níelssyni í umræðunni sl. nótt að þetta hafi allir aðilar staðfest, þar á meðal Öryrkjabandalag Íslands, og um það sé ekki deilt.

Í öðru lagi mundi ég vilja innan þingmanninn eftir þróun launanna undanfarin tvö árin. Er það þannig að á þessu kjörtímabili hafi laun aldraðra og öryrkja fylgt almennri launaþróun eða höfðu þeir dregist aftur úr áður en þessar ákvarðanir voru teknar og hversu miklu munar?