145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:36]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Er það ekki rétt hjá mér að þegar kaup annarra en aldraðra og öryrkja hækkar þá eru sjálfkrafa veittar útgjaldaheimildir fyrir því hjá ríkissjóði? Ef læknar hækka í launum og fá afturvirka samninga er það einfaldlega greitt úr ríkissjóði og samþykktar heimildir fyrir því. Ef kennarar fá hækkun eða aðrir opinberir starfsmenn er aldrei spurt hvort sé til fyrir þeim útgjöldum. Ef það reynist ekki hafa verið gert ráð fyrir þeim þá er bara komið inn í þingið og sagt: Það var prentvilla í tilteknum kjarasamningum og það þarf að ráðstafa 1.192 milljónum í viðbót.

Hefur þingmaðurinn skýringu á því hvers vegna er alltaf spurt hvort sé til fyrir því þegar kemur að launahækkunum hjá öldruðum og öryrkjum? Það er eins og þeirra launahækkanir mæti afgangi og eigi ekki að veita að fullu vegna þess að búið sé að eyða svo miklum peningum í launahækkanir hjá hinum.

Skýtur það ekki nokkuð skökku við að ekki séu til peningar í kassanum þegar ríkisstjórnin er nýlega búin að koma inn í þingið og gera grein fyrir þeim áformum sínum að veita erlendum kröfuhöfum gríðarlegan afslátt af þeim stöðugleikaskatti sem hafði verið ákveðinn og hefði ella skilað umtalsverðum tekjum í ríkissjóð á næsta ári umfram það sem stöðugleikasamningarnir gera og hefði verið hægt að ráðstafa til þessara mikilvægu verkefna?