145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:38]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Jú, það skýtur svo sannarlega skökku við. Það er kannski ekki tilviljun að stjórnarmeirihlutinn hafi einmitt ekki viljað ræða það mál þegar það var í þinginu fyrr í haust. Við fengum ekki upplýsingar um muninn á annars vegar stöðugleikaframlagsleiðinni og hins vegar stöðugleikaskattsleiðinni. Þau vildu ekki sýna okkur niðurstöðurnar. Þau vildu ekki opinbera alla þá fjármuni sem þau voru að setja í hendur hinum svokölluðu hrægömmum.

Varðandi lífeyrisþega er alveg rétt að greiðslur til þeirra virðast lúta öðrum lögmálum en launagreiðslur til opinberra starfsmanna. Lögin eru smíðuð þannig, þó að orðalag klausunnar hafi verið túlkað með ýmsu móti í gegnum tíðina, að það er alveg ljóst hvernig hækka á bætur því að þau lúta að því að tryggja að lífeyrisþegar fylgi kjaraþróun. Það á auðvitað að tryggja að svo sé. Þetta snýst um pólitískan vilja.

Hæstv. fjármálaráðherra virðist finnast fínt að hafa bæturnar bara of lágar því að það þurfi hvata til að fólk vilji vinna. Ég veit ekki hvaða hvata hann vill finna til að fólk sem er komið á eftirlaun fari aftur út á vinnumarkað. Ég spyr mig að því. Svo skil ég ekki hvaða hvata hann vill finna fyrir fólk sem er á sjötugsaldri, flest það fólk sem fer á örorku er (Forseti hringir.) komið á efri ár eða er að eldast, er með sjúkdóma eftir erfiða (Forseti hringir.) vinnuævi, og hvernig hann ætlar að efla hvatana til að fá það fólk aftur út á vinnumarkað. (Forseti hringir.) Þetta er fullkomið skilningsleysi á aðstæðum lífeyrisþega.