145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:40]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs fyrst og fremst til að taka undir með hv. þingmanni. Ég er heils hugar sammála áherslum hennar og ég tel að það sé rétt ábending, sem fram kemur hjá henni, að fjárlagafrumvarpið, eins og það stendur nú, er mjög í óþökk þjóðarinnar. Það byggi ég á mælingum. Íslendingar hafa vel rekið og öflugt heilbrigðiskerfi og þegar það er óvefengjanleg staðreynd að Landspítalanum verða skömmtuð fjárráð sem nægja ekki til að rísa undir skyldum sínum þá er fólk andvígt því. Sama gildir um öryrkja.

Ég hygg að það sé yfirgnæfandi meirihlutavilji Íslendinga að þetta verði lagað og fært í það horf sem við í stjórnarandstöðunni leggjum til. Það sem meira er: Mér býður í grun að í þessum þingsal sé jafnframt meiri hluti fyrir þessu sjónarmiði. Ég held að mörgum stjórnarþingmönnum hafi liðið illa þegar við ræddum í senn kjör öryrkja og aldraðra, niðurskurðinn við Landspítalann og svo ákvarðanir eða fyrirætlanir um að setja 2,3 milljarða í ríkisrekinn banka í Asíu sem allt er óljóst um og er órætt. Enginn úr stjórnarliðinu hefur sýnt nokkurn vilja til að ræða það yfirleitt nema þá hugsanlega formaður efnahags- og viðskiptanefndar sem oft hefur sýnt lit í því efni, en almennt hefur stjórnarmeirihlutinn ekki orðað slíkt. Þarna er misræmi sem ég held að mörgum líði illa með.