145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:45]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er eitt sem mig langar til að spyrja hv. þingmann um, hvort það sé rétt eða rangt hjá mér: Ég hef ekki fylgst með öllum ræðum sem hafa verið fluttar um fjárlagafrumvarpið þó að ég hafi lengstum gert það.

Við höfum fært rök fyrir því, og vísað í upplýsingar frá Landspítalanum, að það þurfi 3 milljarða að lágmarki til að stofnunin geti sinnt skyldum sínum. Hafa komið fram einhverjar málefnalegar skýringar um hið gagnstæða? Ég hef ekki orðið var við það af hálfu stjórnarmeirihlutans. Ég hef ekki orðið var við að það hafi komið nein gagnrök við þessu. Menn hafa leitt þetta hjá sér, eða andæft þessu með einfaldri alhæfingu um að þess þurfi ekki, en hafa komið einhver haldbær málefnaleg rök fyrir því að þessara fjármuna sé ekki þörf?