145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:49]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Nú er farið að síga á nóttina og mig langar að inna forseta eftir því hversu lengi hann hyggst halda þessum fundi áfram. Það er ljóst að nokkrir eru á mælendaskrá og við vorum hér til kl. 3 í nótt og það verður fundur snemma í morgun, það er að minnsta kosti fyrirhugaður fundur hjá mér kl. 9 í fyrramálið. Ég tel að það sé ástæða til að spyrja forseta og fá það fram hvort hann ætlar að funda í klukkutíma eða tvo eða þrjá í viðbót. Það er bara upp á skipulagningu eins og ég segi, upp á það að maður hvílist örlítið áður en farið er á fund af því að það eru mikilvægar ákvarðanir sem maður þarf að taka í fyrramálið. Við erum að fara að fjalla um ríkisborgararétt albönsku fjölskyldnanna og ég tel að það sé nauðsynlegt að við séum með kollinn nokkuð hreinan þannig að ég spyr, virðulegur forseti, hversu lengi hann hyggst halda þessum fundi áfram.