145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:54]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Nú eru fastir liðir eins og venjulega liggur mér við að segja því ætli þetta sé ekki áttunda nóttin sem við stöndum hér í sömu sporum og reynum að kalla fram svör um það hversu lengi ætlunin sé að halda áfram og hálfpartinn biðjast vægðar af því að klukkan er að verða tvö. Það kemur til af því að það er mjög mikilvægur fundur í allsherjar- og menntamálanefnd kl. hálfníu í fyrramálið. Klukkan er að verða tvö og þótt menn telji nú að Alþingi Íslendinga sé hafið yfir vinnulöggjöfina oft og tíðum þá er hún í gildi. Það væri meiri bragur að því að við virtum þau grundvallaratriði sem þar koma fram t.d. um hvíldartíma. Fyrir það fyrsta væri fróðlegt að vita hjá hæstv. forseta hversu lengi fundur á að standa og svo vil ég kannski veita honum þá ráðgjöf og þau velviljuðu tilmæli að þessu fari að ljúka svo við getum mætt til starfa, þau okkar sem eigum að mæta í nefndir snemma í fyrramálið.