145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:55]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér finnst vera tvennt í stöðunni núna. Það er annaðhvort að menn slaufi þessum fundi í kvöld og segi þetta gott eða þá að menn kalli hingað ráðherra málaflokkanna sem helst er á deilt. Það eru þá heilbrigðisráðherra, félagsmálaráðherra og menntamálaráðherra.

Við höfum kallað eftir þeim í umræðunni síðustu daga og við höfum óskað eftir því að þau komi hingað og geri okkur grein fyrir því hvaða afstöðu þau hafa gagnvart þeim málflutningi sem við höfum haldið hér uppi, þ.e. að eldri borgarar og öryrkjar þurfi kjarabætur, og hvort þeim finnst í lagi að við séum hér með þúsundir eldri borgara sem lifa á í kringum 200 þús. kr. á mánuði eftir skatt. Við fáum engin svör og það er svolítið talað eins og við séum hálfgert fyrir þeim og hálftruflandi og séum að gera þeim lífið leitt. En baráttan hér snýst um að reyna að sækja kjarabætur fyrir stóra hópa fólks sem hafa setið eftir og ríkisstjórnin er að skilja eftir. (Forseti hringir.) Mér finnst lágmark að ráðherrarnir komi hingað og svari okkur því og standi fyrir máli sínu hvers vegna þeir telji rétt að keyra svona hart fram.