145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[02:11]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tek undir það. Það var ánægjulegt að sjá hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra í dag en hún tók ekki þátt í umræðunni. Hins vegar kom hæstv. menntamálaráðherra hingað og tók þátt í umræðunni, fór í andsvör, ekki bara við einn þingmann heldur fleiri. Það er það sem skiptir máli. Skoðanaskipti urðu og álit fékkst á því sem verið var að spyrja um. Það er það sem við erum að kalla eftir hjá hæstv. heilbrigðisráðherra. Þetta er held ég þriðja kvöldið sem óskað er nærveru hans. Mér þykir hann ætla að koma sér frekar auðveldlega hjá því að taka á þessum risastóra málaflokki sem heyrir undir hann, sem er Landspítalinn og heilbrigðisþjónusta í landinu. Félags- og húsnæðismálaráðherra hefði getað komið og svarað spurningum varðandi aldraða og öryrkja með meiri brag en hún hefur gert hingað til. En þrír ráðherrar hafa þó alla vega látið sjá sig hér við umræðuna sem er ekki (Forseti hringir.) óeðlilegt að sé krafist. Ég spyr hvort heyrst hafi eitthvað í hæstv. heilbrigðisráðherra frá því við óskuðum eftir honum fyrr í dag og aftur í kvöld.