145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[02:12]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég þurfti að bregða mér í hliðarherbergi til fundarhalda þannig að ég hef ekki alveg náð að fylgjast með viðbrögðum forseta við þessum beiðnum. Það hefur verið óskað eftir nærveru hæstv. heilbrigðisráðherra hér og var raunar gert um svipað leyti í nótt sem leið og í dag, oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Það er auðvitað gert ráð fyrir því samkvæmt þingsköpum að við eigum að sinna þingskyldum okkar á þingfundum. Það gildir bæði um þingmenn og þá þingmenn sem gegna ráðherraembættum, nema lögmæt forföll hamli. Viðkomandi þingmaður þarf þá að koma skýringum á sinni fjarvist til hæstv. forseta. Mér finnst eiginlega algerlega ólíðandi miðað við þá umræðu sem hér hefur verið um heilbrigðismálin, stöðu Landspítalans, einkavæðingaráform og ýmislegt annað sem hér hefur komið upp í umræðunni, að ráðherrann sé ekki viðstaddur og við fáum ekki (Forseti hringir.) skýringar á því. Ég vil spyrja forseta hvort hann hafi kannski fyrr í umræðunni fært þinginu einhverjar skýringar á þessu.