145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[02:28]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Aðeins um stöðugleikaframlagið og samningaleiðina sem ákveðið var að fara og það tangarhald sem við höfðum á kröfuhöfunum eða þá stöðu sem við höfðum gagnvart kröfuhöfunum. Hún var mynduð í mars árið 2012. Mér finnst rétt að minna á það annað slagið. Sumir kalla þau lög litlu eða minni neyðarlögin því með þeim voru búin sett undir höftin og þar með gátum við farið þá leið sem farin var. Það er líka rétt að minna á að sjálfstæðismenn greiddu atkvæði gegn því frumvarpi og framsóknarmenn sátu hjá. En við erum að njóta þess að hafa farið þessa leið og stöðugleikaframlögin eru að tikka inn og á því þurfum við að taka.

Hv. þingmaður talaði um stöðu ríkisfjármálanna. Það er líka mjög stór frétt að í fyrsta skipti frá hruni minnkar afkomubatinn milli ára. Hann var náttúrulega mikill á meðan við vorum að krafsa okkur upp úr kreppunni enda gerðum við ráðstafanir til þess. En eftir að þessi ríkisstjórn, hægri stjórnin, hefur tekið við þá hefur hann stöðvast og núna er hann að minnka á milli ára í fyrsta skipti frá hruni.

Það er umhugsunarvert í hvernig stöðu við erum komin vegna stefnu ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum og sjálfsagt er stefna þeirra í heilbrigðismálum að leiða okkur í átt að auknum einkarekstri.