145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[02:42]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé alveg ljóst á hvaða leið menn eru. Nú þegar erum við að greiða, Íslendingar, yfir borðið, 30 milljarða í heilbrigðiskerfinu og um 14 í menntakerfinu, en það má vera að minnið bregðist mér. En það er um það bil það sem Íslendingar eru að greiða yfir borðið fyrir heilbrigðisþjónustu og fyrir menntun og það er nú dágóð summa. Þetta er einn Landspítali á ári.

Það er verið að fara í þessa átt með aukinni gjaldtöku eins og við urðum til dæmis vitni að í fyrra varðandi gjöld á þá sem þurfa á þjálfun að halda og á hjálpartækjum að halda, þegar gjaldtaka þar var aukin umtalsvert. Við horfum á það í fjöldatakmörkunum í framhaldsskólum þar sem fólki er bent á einkaskóla þar sem skólagjöld eru líka umtalsverð.

Það er verið að lækka skatta sem rýrir tekjur ríkissjóðs til að standa undir heilbrigðisþjónustu og menntakerfinu og það ýtir á þetta. Ef þú vilt fá þjónustu þá þarftu að borga fyrir hana. Þetta er framtíðarsýn sem ég get bara alls ekki hugsað mér fyrir Íslendinga og við verðum að berjast gegn.

Það er svolítið þannig, svo að ég komi að fjárlaganefnd alveg í lokin, eins og við höfum orðið vör við hér í þingsalnum: Þið skuluð ekkert vera að brúka kjaft. Þið voruð kosin í burt. Það er svolítið þetta viðhorf.