145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[02:47]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Við erum alltaf að tala út í tómið. Heldur forseti ekki utan um stjórn þessa fundar? Hvers vegna getur forseti ekki svarað því hvað við verðum lengi hérna? Hvers vegna getur forseti ekki svarað því hvort orðið hafi verið við óskum okkar um að hingað verði kallaðir ráðherrar félagsmála og heilbrigðismála til að eiga við okkur orðastað um það sem verið er að gera í þessum fjárlögum? Ekki koma þau hingað inn með stefnumótandi mál til umræðu. Fjárlagaumræðan er farin að snúast um stefnumörkun á stóru málefnasviðunum. Það er algert lágmark að þau komi hingað og fari yfir þessi mál með okkur en sendi ekki endalaust hingað pótintáta til að halda því fram að hér sé verið að gera eitthvað sem ekki er verið að gera, þ.e. að verið sé að slá einhver met í kjarabótum fyrir eldri borgara og öryrkja t.d., eins og haldið er fram í umræðunum. Það er einfaldlega alrangt. Ég tel að ráðherrarnir þurfi að koma hingað og gera okkur grein fyrir því á hvaða vegferð þeir eru og hvort þeir ætli í raun og veru að standa við fjárlögin eins og þau liggja fyrir núna.