145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[03:06]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Það er rétt, sem hv. þingmaður segir, það er áhyggjuefni að það er eins og hæstv. forsætisráðherra líti á það sem óþægindi að við séum að tala um þetta hérna; að þetta sé farið að snúast um okkur og tilefni til að vera með leiðindi, þannig mátti skilja orð hans hér. Það er hárrétt sem hv. þingmaður segir, þetta snýst ekki um okkur, þingmennina, heldur erum við að berjast fyrir þeim hópum sem ekki eiga rödd hér inni. Það erum við sem ákvörðum kjör þessara stóru hópa.

Það er hér inni sem stjórnarflokkarnir hafa tekið ákvarðanir um að það sé í lagi að fólk hafi tæplega 200 þús. kr. útborgaðar á mánuði. Okkur finnst það ekki. Ég veit að við hv. þingmaður erum hjartanlega sammála um það. En það skiptir máli að þetta komi fram. Það er talað um að nú sé stjórnarandstaðan dottin í hefðbundið málþóf, eins og ekkert sé á bak við það að við séum hér í baráttu. Það er mikilvægt að við drögum fram hvers vegna. Það er fyrir þessa hópa sem við stöndum hér og fyrir bættu heilbrigðiskerfi. Svo sannarlega þarf á því að halda.

Ég held að það fari ekki fram hjá einu einasta mannsbarni að það þarf að bæta í í heilbrigðiskerfinu. Það fer ekki fram hjá einum einasta manni heldur, sem skoðar þetta, að það eru til fjármunir fyrir því. Meðan þessi ríkisstjórn hefur verið að afsala sér tekjum hefur hún beinlínis tekið ákvörðun um að láta þessa hópa sitja eftir og gera ekki meira fyrir heilbrigðiskerfið.